Fréttir

Nýtt útlit

Vinsæla námskeiðið hennar Öbbu, Nýtt útlit verður á dagskrá næsta haust.  Núna er bara pláss fyrir 24 og því um að gera að skrá sig sem fyrst.  Á námskeiðinu er þrír lokaðir tímar í viku, tveir heitir þrektímar og einn Gravity/bolta tími.  Heitu tímarnir eru í sal sem er 37-40 gráðu heitur og það er tekið þokkalega á því í einstaklega skemmtilegum og öðruvísi æfingum fyrir kvið, bak, axlir, rass og læri.  Liðleikinn og jafnvægið fá líka sinn skerf.  Abba notar rúllurnar bæði til að nudda og gera æfingar, létt lóð, litla mjúka bolta og gúmmíteygjur.  Tímarnir verða kl. 16:15 og 16:30.  Námskeiðið byrjar 4. september.

Dekurnámskeið

Dekurnámskeiðið okkar fyrir 50 ára og eldri var mjög vinsælt sl. vetur.  Abba var með tvo volga þrektíma í viku fyrir skvísurnar.  Núna ætlum við að halda því en bæta við einum Gravity þrektíma fyrir hópinn.  Gravity er einföld leikfimi í sérútbúnum bekkjum, einstaklega örugg styrktarþjálfun sem er hægt að hafa létta og líka erfiða ef vill.  Núna verða tveir hópar í boði og frjálst að flakka á milli fyrir vaktavinnufólk.  Kl. 8:15 og hinn hópurinn er kl. 16:15. Hámarksfjöldi í hvorum hóp er 24 og því er gott að tryggja plássið fljótlega. 

Spinning

Óli er með spinning í fyrramálið kl. 6:10.  Einn vinsælasti tíminn í stöðinni undanfarin ár.  Það er ótrúlega einfalt og þægilegt að setjast á hjólið á morgnana, loka augunum, hjóla, svitna og hlusta á góða tónlist.  Þetta eru tímar sem henta öllum, svo ekki hika við að prufa.

Skráning hafin

Við erum byrjuð að skrá á næsta FIMM/TVEIR námskeið sem byrjar 13. ágúst.  10 eða 20 vikur eru í boði.  Þetta er fyrir þau sem eru of þung, byrjendur sem lengra komna.  Lögð er áhersla á að æfa lágmark 5x í viku og leitast við að fara eftir bókinni um 5/2 mataræðið.  Þeir sem borga núna geta byrjað strax að æfa og græða þannig nokkrar vikur.  Getum tekið fyrstu mælingu strax.  Nánar.l

Síðasti heiti tíminn í dag

Abba verður með tvo heita tíma í dag.  Heitt þrek með bolta og lóð og Hot yoga.  Allir velkomnir að prufa öðruvísi og skemmtilega tíma. Þetta er jafnframt síðasti heiti tíminn kl. 16:30 á þriðjudögum í bili.  Það verða tveir heitir opnir þrektímar næsta vetur og Hot yoga tímarnir verða 6 daga vikunnar.

Næsti Zumba tími 21. júlí

Mánudaginn 14. júlí fellur Zumba tíminn niður. Næsti tími verður því mánudaginn 21. júlí, kl. 16:30.

Útitíminn fellur niður

Abba og Óli eru að fara í gönguferð og því fellur útitíminn hans Óla niður á fimmtudaginn.  Aðrir tímar halda sér og Tryggvi kennir t.d. spinning á föstudaginn kl. 6:10, gaman, gaman. Tota tekur Ólatímann og flesta hina tímana.

Opinn Gravitytími og opinn heitur þrektími

Viljum vekja athygli á tveimur spennandi tímum í töflunni.  Annar er heitur þrektími kl 16:30 á þriðjudögum og annan hvern miðvikudag kl. 8:15 og næsti er í fyrramálið.  Tímar sem koma á óvart, prufaðu og þú ánetjast. Hinn tíminn er Gravity í bekkjunum góðu á fimmtudögum kl 16:30.  Pláss fyrir 12 svo það er gott að koma ekki of seint ef allir bekkirnir klárast.

Spennandi spinning

Óli og Anna eru fjarverandi og því sjá Arna Benný og Jonni um spinningtímana mánudaginn 7. júlí.  Þau hafa tekið nokkra tíma sl. vetur og munu örugglega láta alla taka vel á því.

Fækkum tímum í júlí

Það eru tveir tímar sem eru illa sóttir á morgnana núna yfir hásumarið.  Við ætlum því að fella þá niður fram yfir verslunarmannahelgi.  Þrektíminn á fimmtudögum kl. 6:10 og á föstudögum kl. 8:15.  Bendum þeim sem eru duglegir að mæta á að Óli er alltaf á staðnum á morgnana og til í að hjálpa í tækjasalnum og kenna ykkur að fara eftir æfingu dagsins.  Bara skemmtileg tilbreyting og spennandi fyrir þá sem hafa ekki enn prufað tækjasalinn.  Það verður þrektími í fyrramálið kl. 8:15 og svo verður frí næstu fjóra.